Fyrirtækið

HONDA FJÓRHJÓL

Uppgötvaðu og njóttu þess besta sem völ er á, í heimi fjórhjóla.

HONDA SNJÓBLÁSARAR

Hágæða Honda snjóblásarar sem hæfir þinu verki.

2007
Fyrstu fjórir mánuðir í rekstri Bernhard ehf. lofa góður fyrir árið í heild. Nýr Honda CRV var frumsýndur og er hann nú mesti seldi bensínbíllinn á Íslandi. Markaðshlutdeild Bernhard er nú orðin 8,9% og má reikna með aukningu á henni er líða tekur á árið. Hjólasalan á árinu stefnir í enn eitt metið, eða yfir 350 hjól. Hjá Bernhard ehf. starfa um 50 manns.

2006
Bernhard ehf. tekur yfir rekstur söludeildar í Reykjanesbæ. Sölu – og þjónustuaðili Bernhard á Akranesi, Bílver opnar nýja og glæsilega aðstöðu í 1.000fm húsnæði. Bílasalan náði 1.250 eintökum með 7,3% markaðshlutdeild. Mótorhjólasalan fór langt fram úr björtustu vonum og voru yfir 250 ný hjól afgreidd á árinu. Bernhard ehf. opnar fullbúna þjónustudeild fyrir mótorhjól.

2005
Árið 2005 var Bernhard ehf. sérlega hagstætt. Heildarsala nýrra fólksbíla fór yfir 1.500 eintök með markaðshlutdeild um 8,4%. Bifhjólasala hefur vaxið gríðarlega síðustu ár og hefur sala Honda hjólanna vaxið með eindæmum mikið. Bernhard ehf. vinnur að undirbúningi að útvíkkun þjónustunets á Íslandi. Standsetning fær nýja og mun betri aðstöðu.

2004
Besta bílasöluár Bernhard ehf. til þessa. Afhentir voru um 1000 nýjar Honda og Peugeot bifreiðar til hamingjusamra kaupanda á árinu.

2002 - 2003
Unnið við breytingar á húsinu Vatnagörðum 26 og 1. október 2003 er starfsemi verkstæðisins flutt þangað. Við það stækkar verkstæðið nær þrefallt og öll þjónustan í tengslum við umboðið í næsta húsi. Keyptar voru nýjar lyftur, verkfæri endurnýjuð, rafmagn-, loft- og smurlagnir samkvæmt nýjustu kröfum. Gerðar eru miklar kröfur um vönduð vinnubrögð sem og menntun og þjálfun starfsmanna. Umgengni og þrif í hæsta flokki enda gengur verkstæðis salurinn undir nafninu „Skurðstofan". Standsetning nýrra bíla er einnig í húsinu.

2001
Í júlí 2001 fjárfestir Bernhard ehf. í nýju húsnæði, Vatnagörðum 26. Húsnæðisvandamál fyrirtækisins eru þannig leyst til nokkurra ára og hefur sýningarsalur fyrirtækisins nú þegar verið stækkaður úr 240fm í rúmlega 600fm. Í sýningarsalnum verða daglega sýndar yfir 15 mismundandi útfærslur af Honda og Peugeot bílum. Einnig er aukin aðstaða fyrir Aflvéladeildina og Mótorhjóladeildina.

2000
Gunnar Bernhard ehf. tók við umboðinu fyrir Peugeot 1. febrúar 2000. Peugeot var mikill happafengur fyrir fyrirtækið. Framleiðsla Peugeot passar sérlega vel að framleiðslu Honda og merkin styðja hvort annað á allan hátt. Má segja að nú sé fyrirtækið komið í það horf sem eigendur þess hafa lengi stefnt að. Hagkvæmni stærðarinnar er nú nýtt að fullu til aukinnar þjónustu og meiri sveigjanleika.
Fyrsta maí 2000 var opnað nýtt bifvélaverkstæði fyrir Honda og Peugeot að Dalvegi 16c í Kópavogi. Verkstæðið er búið nýjustu tækjum og þar vinna sérþjálfaðir bifvélavirkjar. Til aðlögunar breyttum tímum var ákveðið að taka upp nýtt nafn: BERNHARD ehf. Einnig var hannað og tekið í notkun nýtt merki (logo) - sameiningartákn fjölbreyttari rekstrar.

1997
Þetta ár var Honda CR-V kynntur. CR-V er fjórhjóladrifinn bíll með hvortveggja eiginleika jeppa og fólksbíls og mætti halda að hann hafi verið hannaður sérstaklega fyrir íslenskan markað. CR-V borgarjeppinn varð strax gríðarlega vinsæll og er enn. Hafa margir framleiðendur síðan leitast við að feta í fótspor Honda CR-V vegna vinsælda og heppilegrar hönnunnar bílsins.

1983 – 1996
Hefðbundin sala á bílum, bifhjólum, rafstöðvum og dælum hélt áfram á þessum árum. Það sem helst markaði þetta tímabil voru miklar sveiflur í bíla- og bifhjólasölu vegna óstöðugleika gengis krónunnar og stjórnvaldsaðgerða.

1982
Honda umboðið flutti þá loksins í eigið húsnæði að Vatnagörðum 24. Þetta var algjör bylting fyrir starfsemina. Nýja húsnæðið fyrir reksturinn var hannað af Manfreð Vilhjálmssyni, arkitekt, með tí-földum gólffleti og bílastæðafjölda á við fyrri stað.

1975
Honda Accord hóf innreið sína á íslenskan markað. Civic og Accord bílarnir urðu mjög vinsælir og þóttu marka stefnuna í þróun bíla á þeim tíma hvað varðaði útlit þægindi og sparneytni. Að margra mati eru þeir dæmi um klassíska bíla áttunda áratugarins.

1974
Innflutningur á Honda Civic byrjaði. Þessi gríðarlega vinsæli bíll náði strax góðri fótfestu á Íslandi og hafði umboðið engan veginn undan að afgreiða þá. Civic var tímamótabíll; mjög fallegur, kraftmikill, sparneytinn og rúmgóður.

1972
Enn og aftur var flutt. Að þessu sinni í nýtt húsnæði við Suðurlandsbraut 20. Búðin og varahlutaafgreiðslan voru að framanverðu og í bakhúsinu voru viðgerðir og standsetning. Ennþá voru eingöngu seld bifhjól, rafstöðvar og vatnsdælur.

1970
Fyrsti Honda bíllinn kom til landsins: Honda N-600. Honda N-600 var lítill bíll með 600 cc, tveggja strokka, 45 hestafla loftkældri vél. Hann var framdrifinn, rauður á lit og gekk undir gælunafninu Kryppi. Hann er ennþá til. Kryppi er nú í eigu fyrirtækisins og er verið að gera hann upp.

1968
Umboðið flutti í stærra húsnæði við Laugaveg 168 á horninu við Nóatún hjá Olís bensínstöðinni. Þar var fyrsti sýningarglugginn og dálítil aðstaða fyrir varahlutalager. Opið var frá 16:00 til 18:00. Samsetning vélhjóla og frágangur var í bílskúrnum heima hjá Gunnari Bernhard, stofnanda fyrirtækisins.

1965
Fyrsta húsnæði fyrirtækisins var tekið í notkun. Byrjað var á gömlu pústverkstæði í porti sem var Brautarholtsmegin við Laugaveg 168. Þar var smápláss til samsetningar og viðgerða og voru varahlutirnir afgreiddir í gegnum lúgu á hurðinni. Opið var frá 20:00 til 22:00.

1962
Fyrstu léttu Honda bifhjólin, C-114, komu til landsins. Var þar um að ræða algjöra byltingu á vélhjólum miðað við þau sem voru til fyrir. Voru þau bæði miklu kraftmeiri og allt öðruvísi útlits en þá tíðkaðist. Gríðarlegur áhugi myndaðist strax hjá ungum piltum og allt sem kom seldist um leið og langir biðlistar mynduðust.